Karellen

Lífsleikni

Haustið 2011 hófst innlögn „Lífsleikni í leikskóla“ í Ársölum, en lífsleiknin byggir á 12 dygðum og var ákveðið að leggja inn eina dygð á hverri önn. Það eru mikil forréttindi að fá að vera innan um öll þessi yndislegu börn og fá að taka þátt í uppeldi þeirra. Enn fremur fylgir því mikil ábyrgð að leiða ungar barnssálir fyrstu sporin á lífsleiðinni. Í Ársölum höfum við valið að starfa í anda lífsleikni þar sem virðing og umburðarlyndi gegna lykilhlutverki í öllum samskiptum, eða eins og segir í skólasöng Ársala:

„með lífsleikni lærum

að leika betur hér,

með stórum og smáum

þá semur öllum vel“

Að sýna náunganum: vinsemd, samkennd, hjálpsemi, kurteisi, glaðværð

Að vera: ábyrgur, áreiðanlegur, þolinmóður, hófsamur, hugrakkur

Að bera virðingu fyrir öðrum/öðru og að efla með okkur sköpunargleði

Þessar 12 dygðir sem taldar eru upp hér að ofan eru og verða viðfangsefni okkar í Ársölum og á þeim byggir námsefnið „Lífsleikni í leikskóla“ sem þróað var af þremur leikskólum á Akureyri (Krógabóli, Síðuseli og Sunnubóli) á árunum 2001-2004. Niðurstöður lífsleiknistarfsins á þessum þremur fyrrgreindu leikskólum sýndu að börn á leikskólaaldri eru fær um að tileinka sér notkun dygðahugtaka og setja þau í samhengi við daglegt líf.

Vorið 2011 fengu starfsmenn Ársala kennslu í „lífsleikni í leikskóla“ og undirbúningur hófst fyrir innleiðingu þess. Haustið 2011 byrjuðum við síðan með fyrstu dygðina; vinsemd og það tekur okkur 6 ár að fara í gegnum dygðirnar tólf þar sem við tökum fyrir eina dygð á haustönn og eina á vorönn ár hvert.

Við höfum ákveðið að vinna markvisst dygðastarf frá 15. sept.- 30. nóv. og 15. jan.-30. apríl, ár hvert. Skömmu áður en dygðastarfið hefst formlega hverju sinni er dygðavísir viðkomandi dygðar settur inn á heimasíðuna. Dygðavísir er lítill bæklingur sem fylgir hverri dygð og þar eru umræðupunktar og upplýsingar um bækur og söngva sem tengjast dygðinni. Auk leiðbeininga og hugmynda um hvernig best er að koma boðskapnum til barnanna og hvernig foreldrar geta unnið í anda lífsleikninnar heima.

Við setjum upp spakmæli í anda viðkomandi dygðar út um allt hús, ætluð bæði börnum og fullorðnum. Í vinastundum á föstudögum sem eru sameiginlegar söngstundir á Völlum og Strönd, er tekið mið af þeirri dygð sem unnið er með í hvert sinn. Allar deildir eiga sína handbrúðu sem börn og starfsfólk eru búin að velja nöfn á í sameiningu. Þessar handbrúður eru málpípur dygðanna og þær koma alltaf í upphafi hvers dygðatímabil á eldra stigi og heilsa upp á börnin í vinastund og kveðja síðan aftur í vinastund í lok tímabilsins. Með slíkum brúðum er hægt að ná mjög vel til barna, og þær eru alltaf mjög vinsælar. Þær fara í heimsókn til allra barnanna einu sinni með hverri dygð og þá skrifa foreldrarnir í þar til gerðar dagbækur sem fylgja brúðunum; hvernig heimsóknin gekk og hafa viðkomandi dygð til viðmiðunar í skrifum sínum. Þegar komið er aftur í leikskólann les kennarinn það sem foreldrið hefur skrifað fyrir allan hópinn á deildinni og barnið situr við hliðina á kennaranum með brúðuna. Þetta finnst börnunum alveg fjarskalega skemmtilegt og spennandi að heyra hvernig heimsóknin gekk fyrir sig. Á yngra stiginu eru það elstu börnin sem hittast reglulega í hópastarfi þar sem þau vinna m.a. markvisst í anda dygðanna og fá að fara heim með dygðabrúðurnar.

„Aðalmarkmiðið með því að vinna með lífsleiknina í gegnum dygðirnar er að efla siðferðisvitund barnanna í þeim tilgangi að verða bæði góð og fróð manneskja.“

Í lok hverrar annar (í nóvember og apríl) verður tekin skráning af hverju barni. Dæmi um skráningu v/dygðarinnar virðingar: Stúlka 4 ára: „einhver sé að kitla mann og einhver segir „hættu“, og hann hættir ekki, þá er maður ekki að sýna virðingu“ . Lífsleiknin fellur ákaflega vel að SMT- agastjórnunarkerfinu sem leikskólar í Skagafirði vinna eftir, þar er unnið með agastjórnun á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.

Dygðirnar verða lagðar inn í eftirfarandi röð: Vinsemd, hjálpsemi, hugrekki, glaðværð, hófsemi, sköpunargleði, þolinmæði, ábyrgð, kurteisi, samkennd, virðing og áreiðanleiki.

Þegar búið er að leggja inn allar dygðirnar er byrjað aftur frá byrjun.

© 2016 - 2024 Karellen