Karellen

Velkomin á heimasíðu Skóga 2023 - 2024

Í vetur verða 18 börn í Skógum. Sjö börn eru fædd 2019 og ellefu börn eru fædd 2018, ellefu stúlkur og sjö drengir. Starfið mun taka mið að aldri barnanna á deildinni. Við leggjum áherslu á að börnunum líði vel og finni til öryggis í leikskólanum. Einnig leggjum við áherslu á að sýna börnunum hlýju og virðingu og reynum að mæta þörfum þeirra og foreldra í daglegu starfi.

Deildin opnar kl. 7:45 á morgnana og þá er rólegur frjáls leikur fram að morgunmat, sem byrjar uppúr kl. 8:00. Í Skógum er flæðandi morgunmatur sem þýðir að við borðum við tvö borð og börnin mega fara frá borðinu þegar þau eru búin að borða og fara þá í frjálsan leik. Ef það komast ekki allir að borðinu í upphafi máltíðar eru þau í frjálsum leik á meðan, og koma svo að borða þegar sæti losnar við borðið. Þau börn sem koma eftir kl 8:40 þurfa að vera búin að borða heima.

Eftir morgunmat tekur við hópastarf eða frjáls leikur, allt eftir því hvað hentar hverju sinni. Í hópastarfi er unnið í þremur aldursblönduðum hópum að málörvun, sköpun, hreyfingu og myndlist. Við höfum þrjú svæði utan deildar í húsinu til umráða, eitt af eftirfarandi annan hvern dag; Vellir (salur), Flæðar (myndlist) og Flatir (leikrými) og nýtist það vel.

Unnið er með tvær dygðir á skólaárinu, Kurteisi á haustönn og Þolinmæði á vorönn.

Ávaxta- og samverustund er allajafna kl 9:30. Þessar stundir notum við til að lesa, syngja og borða ávexti. Þá förum við yfir hvaða dagur, mánuður og árstíð er og stundum kemur Lubbi í heimsókn og við skoðum staf vikunnar. Við förum svo saman í útiveru á milli kl. 10:00-11:15.

Hádegismatur stendur yfir frá kl. 11:30 – 12:00 en þá tekur við róleg stund sem er búin kl. 12:40. Árgangaskipt er í rólegu stundina og fer árgangur 2019 alltaf í rólega stund inni á deild á meðan árgangur 2018 fer ýmist í rólega stund á Völlum (salnum), flæðum (myndlistarými) eða í Skógum.

Eftir rólegu stundina er útivera, síðan tekur við samverustund/frjáls leikur og síðdegishressing er í boði kl 14:30. Eftir hressinguna erum við í frjálsum leik þar til börnin fara heim. Þau börn sem eru með vistun til kl 16:30 fara í salinn kl. 16:15 og eru sótt þangað.

Á föstudögum eru vinastundir á Völlum (salnum), tvískipt er í vinastundirnar á eldra stigi og förum við ásamt Laut, Hlíð og Þúfu og syngjum saman, fögnum afmælisbörnum vikunnar og hlustum á stjórnandann sem oftast er Berglind Guðmundsdóttir aðstoðarleikskólastjóri, segja eitthvað skemmtilegt.

Í Skógum vinna:

Guðríður Helga Tryggvadóttir, deildarstjóri.

Sigrún Baldursdóttir, leikskólakennari.

Herdís Jónsdóttir, leikskólakennari.

Valbjörg Pálmarsdóttir, leikskólakennari.

Anna Guðrún Guðjónsdóttir, leiðbeinandi.

Ingibjörg Rós Jónsdóttir, leiðbeinandi.

Við viljum að endingu minna á að merkja föt barnanna vel og hafa nóg af aukafötum í körfunni.

© 2016 - 2024 Karellen