Karellen

Hér eru fréttir af deildinni okkar

Velkomin á heimasíðuna okkar í Laut :)

Kennarar í Laut eru:

Halldóra Björk (Dóra) deildarstjóri, Hlíf Sumarrós leikskólakennari, Hólmfríður Sylvía leiðbeinandi, Agnes Rós leiðbeinandi og Helga Jóna leiðbeinandi er í afleysingu.

Í Laut skólaárið 2020-2021 verða 20 börn. Strákarnir eru 11 og stelpurnar 9. Sautján börn eru fædd 2016 og þrjú eru fædd 2017.

Dagsskipulagið okkar:

Leikskólinn opnar opnar kl. 7:45 og byrjum við með frjálsum leik. Klukkan 8:00 byjar morgun matur sem er flæðandi sem þýðir að við borðum við tvö borð og börnin mega fara þegar þau eru búin að borða. Ef börnin komast ekki öll fyrir í upphafi máltíðar halda þau áfram að leika þar til sæti losnar.

Milli klukkan 9 og 9:30 er hópastarf mánudaga, miðvikudaga og fimmtudaga. Í hópastarfinu vinna börnin í minni hópum að ýmsum verkefnum víðsvegar um húsið og þá leggjum við m.a. áherslu á málörvun, spil, tónlist, fínhreyfingar, grófhreyfingar, myndlist og frjálsan leik svo eitthvað sé nefnt. Um hálf tíu förum við í samverustund og fáum okkur ávexti. Útivera er svo alla morgna hjá okkur frá klukkan 10-11:15.

Á föstudögum er vinastund kl 9 en þá koma allar deildir saman á Völlum, syngja og hafa gaman.

Hádegismatur er svo klukkan 11:30 og hvíld þar á eftir.

Klukkan 13:00-14:15 er útivera eða val en þá geta börnin valið sér svæði til að leika á. Svæðin eru inn á deildum og öðrum svæðum í húsinu eins og völlum (salurinn), flæðar (myndlistakrókur) og fl.

Klukkan 14:30 er síðdegishressing og frjáls leikur þar á eftir. Einnig eigum við ákveðið svæði í húsinu á þessum tíma og förum við þangað með nokkur börn.

Klukkan 16:15 fara þau börn sem eru til 16:30 í Skóga

Leikskólinn lokar 16:30.

Við viljum minna á að merkja föt barnanna, hafa nóg af aukafötum í körfunum og fara yfir hólfin þeirra í lok hvers dags.

Áherslur í starfi hjá okkur er meðal annars þessar:

Lubbi finnur málbein er efni sem hugsað er til málörvunar og hljóðanáms fyrir börn á aldrinum 2-7 ára. Hver hópur fer einu sinni í viku í Lubbastund þar sem unnnið er með staf vikunar. Við syngjum lag og lesum sögu um stafinn sem verið er að vinna með hverju sinni, förum í leiki og margt fleira. Við eigum okkar Lubba og notum við hann í Lubbastund.

TMT

Við erum að vinna með Tákn með tali, hvert barn og starfsmenn eiga sín tákn. Við syngjum nokkur lög með táknum og þjónarnir segja hvað er í matinn með táknum og bjóða gjörið þið svo vel. Einnig þökkum við fyrir okkur með táknum. Lögð verða inn 4 tákn í mánuði sem eru þá tákn mánaðarins.

SMT

Í upphafi skólaárs eru SMT reglurnar kenndar börnunum, notaðar eru tvær vikur til kennslu og æfingu á hverri reglu. Við kennum þeim reglurnar með því að sýna þeim hvernig við förum eftir þeim. Börnin fá hrós fyrir að fara eftir reglunum og fá stundum bros. Við reynum að gefa hverju barni eitt bros á viku og stundum meira, við gefum fleiri bros þegar við erum að byrja að kenna hverja reglu. Þegar þau eru búin að fylla "orminn", fá þau umbun sem þau eru búin að velja sjálf. Þau koma með hugmyndir um hvað þau vilja gera og við ræðum um hvort þær eru framkvæmanlegar. Svo kjósa þau á milli tveggja hugmynda. Við stefnum á að hafa a.m.k. eina umbun fyrir áramót og 1-2 eftir áramót.

Við erum með sex SMT reglur í Ársölum:

  • Að nota inniröddina
  • Að hafa hendur og fætur hjá sér
  • Að ganga inni
  • Að hlusta á þann sem talar
  • Að taka saman
  • Að fara vel með leikföngin

Dygðir

Dygðirnar eru 12 og er unnið með eina dygð fyrir áramót og aðra eftir áramót. Þetta skólaár munum við vinna með dygðina þolinmæði fyrir áramót og ábyrgð eftir áramót. Við vinnum með dygðina í öllu okkar starfi, notum orðalagið og vinnum verkefni sem tengjast henni. Dygðabrúðan okkar heitir Emil og mun hún fara einu sinni í heimsókn til barnanna á hverri önn. Í pokanum með Emil er bók og í hana er skrifað hvað þau gerðu saman yfir daginn og reynt að tengja það við dygðina sem unnið er með hverju sinni.

© 2016 - 2023 Karellen