Karellen

Reglur foreldraráðs

Starfsreglur foreldraráðsins eru eftirfarandi:

  1. Foreldraráð starfar eitt skólaár í senn þ.e. frá 1.október til og með 30. september ár hvert og fundar tvisvar sinnum á önn eða eftir þörfum.
  2. Fulltrúar í ráðinu og starfsreglur þess skulu kynntar á heimasíðu leikskólans. Á fyrsta fundi skulu formaður og ritari vera skipaðir. Leikskólastjóri skal upplýsa ráðið um hver þau mál sem snert geta starfsemi skólans og ráðið fjallar um. Ráðið skal rita fundargerð og sjá til þess að fundargerðir séu aðgengilegar á heimasíðu skólans.
  3. Leitast skal við að a.m.k. einn fulltrúi haldi áfram næsta ár á eftir þó aðrir hafi hætt til að tryggja samfellu í starfi ráðsins.
  4. Í upphafi hvers skólaárs óskar leikskólastjóri eftir nýjum framboðum. Skal það gert með auglýsingum í leikskólanum og á heimasíðu skólans.
  5. Foreldraráð starfar með leikskólastjóra og skal vera tengiliður við aðra foreldra. Foreldraráð skal beita sér fyrir lýðræðislegum vinnubrögðum í samskiptum við foreldra, leikskólastjóra og bæjaryfirvöld.
  6. Á fundi foreldraráðs við lok starfstímabilsins gerir formaður þess nýjum meðlimum ráðsins grein fyrir starfi þess.
  7. Helstu verkefni: Ráðið skal vera umsagnaraðili um skólanámskrá, skóladagatal og áætlun vetrarins með leikskólastjóra. Bera skal skóladagatal saman við skóladagatöl grunnskólanna m.t.t. skörunar við starfsdaga og aðra frídaga. Ráðið skal einnig fjalla um ábendingar frá foreldrum, sumarlokanir leikskólanna og aðrar stórar ákvarðanir sem hafa áhrif á starf skólans.
  8. Leikskólastjóri skal upplýsa foreldraráð um öll meiriháttar mál sem hafa áhrif á starfsemi leikskólans og gefa þeim þannig kost á að fjalla um þau.
  9. Komi upp tilvik sem foreldraráð telur að þarfnist umræðu með öllum foreldrum leikskólabarnanna skal ráðið boða til fundar með foreldrum þar sem málin skulu rædd og lýðræðislegar ákvarðanir teknar. Foreldraráð fylgir þeim ákvörðunum síðan eftir.
  10. Fulltrúar í foreldraráði skulu gæta þagmælsku um atriði sem þeim er trúað fyrir vegna setu þeirra í foreldraráði.
  11. Starfsreglur þessar skulu endurskoðaðar í lok hvers skólaárs. Til stuðnings og nánari útfærslu starfsreglna þessara er vísað í 11. grein laga um leikskóla
© 2016 - 2024 Karellen