Karellen

Verklagsreglur

Vegna afsláttar á dvalargjöldum í leikskólum, frístund og daggæslu í heimahúsum í Skagafirði.

Systkinaafsláttur:

Systkini í þessum reglum eru börn með sama lögheimili og eru í daglegri umsjá sömu aðila.

1. Systkini sem eru í mismunandi úrræðum á vegum sveitarfélagsins njóta systkinaafsláttar. Afslátturinn reiknast þannig að fyrir yngsta barnið er greitt fullt gjald skv. reglum viðkomandi úrræðis (þ.e. leikskóladvöl, skólafrístund eða daggæslu í heimahúsum), fyrir næst yngsta barnið er greitt 50% af gjaldskrá en ekkert er greitt fyrir þriðja barnið og þar umfram.

2. Systkinaafsláttur reiknast einungis af dvalargjöldum, ekki fæðisgjöldum.

3. Til að njóta systkinaafsláttar í frístund þarf dvöl barns að vera að lágmarki 10 stundir á viku.

Viðbótarniðurgreiðslur:

1. Hægt er að sækja um viðbótarniðurgreiðslur á grundvelli tekna og er þá miðað við heildartekjur s.l. þriggja mánaða í samræmi við tekjuviðmið sem Skagafjörður setur, sjá gjaldskrá um tekjuviðmið vegna viðbótarniðurgreiðslna. Tekjuviðmið skiptast í tvö þrep og er viðbótarniðurgreiðslan 40% af almennu gjaldi ef viðkomandi er í tekjuþrepi 1 en 20% af almennu gjaldi ef viðkomandi er í tekjuþrepi 2. Niðurgreiðsla er ekki veitt af fæði.

2. Í þeim tilfellum sem systkinaafslætti nýtur við er engu að síður hægt að sækja um viðbótarniðurgreiðslu og þá reiknast niðurgreiðslan á það gjald sem ekki er þegar afsláttur af.

3. Til þess að öðlast rétt til viðbótarniðurgreiðslu er horft til tekna foreldra/forráðamanna, bæði einstaklinga og foreldra/forráðamanna í sambúð, sem grundvallast á staðfestu staðgreiðsluyfirliti síðustu þriggja mánaða sem og nýjasta skattframtali.

4. Foreldrar/forráðamenn sem óska eftir niðurgreiðslum skulu sækja um þær í gegnum Íbúagátt Skagafjarðar fyrir 20. hvers mánaðar og skulu umbeðin gögn fylgja umsókn áður en hún er tekin til efnislegrar afgreiðslu. Niðurgreiðslurnar taka þá gildi næsta mánuð eftir að umsókn er afgreidd og gilda út skólaárið eða til 1. ágúst ár hvert. Umsóknir eru ekki afturvirkar og endurnýja þarf þær árlega.

5. Vegna sérstakra aðstæðna er hægt að sækja um afslátt af gjöldum. Slíkar umsóknir skulu lagðar fyrir fræðslunefnd og afgreiddar sem trúnaðarmál.

Annað:

1. Innheimtufulltrúi sveitarfélagsins tekur við umsóknum um systkinaafslátt og viðbótarniðurgreiðslur skv. ofanrituðu og hefur umsjón með afgreiðslu í samvinnu við forstöðumenn viðkomandi stofnana.

2. Leikskólastjórar, forstöðumenn frístundar og dagforeldrar sjá um að kynna verklagsreglur fyrir foreldrum og leiðbeina um umsókn um viðbótarniðurgreiðslur skv. ofanrituðu.

3. Foreldrum/forráðamönnum ber að tilkynna leikskólastjórum, forstöðumönnum frístundar og dagforeldrum um breytingar á högum sínum, s.s. breytt heimilisfang, símanúmer og hjúskaparstöðu.

4. Verði ágreiningur um ofangreindar verklagsreglur skera fræðslustjóri og félagsmálastjóri úr um afgreiðslu.

Samþykkt í fræðslunefnd þann 1. desember og staðfest í sveitarstjórn þann 14. desember 2022.

Við samþykkt reglna þessara falla úr gildi Verklagsreglur fyrir starfsemi leikskóla, heilsdagsskóla og daggæslu í heimahúsum í sveitarfélaginu Skagafirði frá 2009, málsnúmer 0909052


Málsnr. 2202110

© 2016 - 2023 Karellen