Karellen

Verklagsreglur

-Fyrir starfsemi leikskóla, heilsdagsskóla og daggæslu í heimahúsum í Sveitarfélaginu Skagafirði-

Verklagsreglur þessar byggja á reglum um innritun og umsóknarfrest í leikskóla, sem samþykktar voru í febrúar 2009 og reglum um dagvistun í heimahúsum frá janúar 2009.

Systkinaafsláttur:

Systkini í þessum reglum eru börn með sama lögheimili og eru í daglegri umsjá sömu aðila.

 • Systkini sem eru í mismunandi úrræðum á vegum sveitarfélagsins njóta systkinaafsláttar. Afslátturinn reiknast þannig að fyrir yngsta barn er greitt fullt gjald skv. reglum viðkomandi úrræðis (þ.e. vistun hjá dagforeldrum, leikskóla eða skóladagvist eftir því sem við á), fyrir næstyngsta barnið er greitt 50% af gjaldskrá en ekkert er greitt fyrir þriðja barnið og þar umfram.
 • Systkinaafsláttur reiknast einungis á vistunargjöld, ekki á fæðisgjöld.
 • Til að njóta systkinaafsláttar í heilsdagsskóla þarf vistun barns að vera að lágmarki 10 stundir á viku. Í upphafi skólaárs skulu foreldrar ákveða tímafjölda vistunar og greiðist fyrir umsaminn tímafjölda óháð nýtingu hans. Gjöld skulu greidd fyrirfram fyrir hvern mánuð. Vistunarsamningi má segja upp með eins mánaðar fyrirvara, fyrir 20. hvers mánaðar.

Sérgjald:

 • Einstæðir foreldrar geta sótt um að greiða sérgjald skv. gjaldskrá. Hefji einstæðir foreldrar sambúð skal greiða hærra gjald þegar sambúð hefst. Slíti foreldrar sambúð skal leggja fram vottorð frá sýslumanni og geta þá foreldrar sótt um að greiða sérgjald frá næstu mánaðarmótum eftir að vottorð berst.
 • Námsmenn geta sótt um að greiða sérgjald ef báðir foreldrar eru í viðurkenndu fullu lánshæfu háskólanámi, eða í fullu námi í framhaldsskóla og uppfylla kröfur um lágmarks námsframvindu hjá viðurkenndri menntastofnun. Afsláttur þessi gildir einungis á starfstíma viðkomandi námsstofnunar. Skila skal innritunarvottorði frá skóla í upphafi hverrar annar. Einnig þarf að skila vottorði um námsframvindu eða námslok í júní og janúar.
 • Ef annað eða báðir foreldrar hafa eingöngu tekjur af lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins vegna örorku geta þeir sótt um að greiða sérgjald. Viðkomandi skal þá skila fullnægjandi gögnum þar um.
 • Ef barn er fatlað samkvæmt niðurstöðu greiningar og er í umönnunarbótaflokki 1 - 3 samanber skilgreiningu Tryggingastofnunar ríkisins geta foreldrar sótt um að greiða sérgjald.

Annað:

 • Innheimtufulltrúi sveitarfélagsins tekur við umsóknum um afslátt á vistunargjöldum skv. ofanrituðu og hefur umsjón með afgreiðslu í samvinnu við forstöðumenn viðkomandi stofnana.
 • Leikskólastjórar, deildarstjóri heilsdagsvistunar og dagmæður sjá um að kynna verklagsreglur fyrir foreldrum og leiðbeina um umsókn um afslátt skv. ofanrituðu.
 • Foreldrum/forráðamönnum ber að tilkynna leikskólastjórum, deildarstjóra heilsdagsskóla og dagmæðrum um breytingar á högum sínum, s.s. breytt heimilsfang, símanúmer og hjúskaparstöðu.
 • Verði ágreiningur um ofangreindar verklagsreglur skera fræðslustjóri og félagsmálastjóri úr um afgreiðslu.

Reglur þessar gilda frá 1. janúar 2010

© 2016 - 2022 Karellen